Til baka
Einar Óskar

Nokkur lykilatriði fyrir fyrirtæki á vefnum

Það eru fjölmörg atriði sem þarf að hafa í huga þegar þú býrð fyrirtækinu þínu góðan og aðgengilegan vef. Við höfum tekið saman nokkur lykilatriði sem gott er að hafa í huga áður en lagt er í þetta skemmtilega en krefjandi verkefni.

Vefsíðan er ekki fyrir þig, hún er fyrir alla hina

Algengustu mistök þess sem vinnur efnið á vefsíðunni sinni sjálfur er að hugsa efnistökin út frá sjálfum sér. Vefsíðan þín er nefnilega ekki fyrir þig, hún er fyrir alla hina.

Byrjaðu á því að greina þau atriði sem þinn viðskiptavinur leitast eftir og stilltu upp veftré og efni út frá þeim niðurstöðum. 

Minna er meira

Hreyfimyndir, sjálfspilandi tónlist og annað glimmer veldur því yfirleitt að sá sem leitar sér upplýsinga á vefnum verður þreyttur á því að skoða hann. Auðveldlega getur allt óþarfa skraut orðið til þess að notandanum leiðist lesturinn auk þess að hætta er á því að hann geti einfaldlega ekki opnað síðuna vegna þess að vafrinn styður ekki virknina.

Förum varlega í glansmyndirnar. Birtum fyrst og fremst það sem skiptir mestu máli.

Notandinn leitar grunnupplýsinga

Það er best að hugsa vefinn sinn út frá notendanum. Mörg fyrirtæki búa að frábærum vefsíðum en í hita hönnunarvinnunnar gleymast oft aðalatriðin. Hversvegna heimsækir viðskiptavinurinn síðunua mína? Í flestum tilvika eru það einfaldlega atriði á borð við símanúmer, heimilisföng og opnunartíma.

Ekki gleyma aðalatriðunum. Allt annað er bara bónus.

Gullinn meðalvegur milli mynda og texta

Myndir og texti eru óumflýjanlega aðalatriði á flestum vefsíðum. Þó þú búir yfir heimsins bestu myndum máttu þó ekki tapa þér í gleðinni. Of mikið af myndum og of lítill texti getur reynt á þolinmæði notandans. Eins getur of mikill texti orðið til þess að lesandinn einfaldlega gefist upp.

Finndu jafnvægið við efnisinnsetninguna og stilltu myndunum upp til stuðnings hnitmiðaðs texta.

Efnið er eina málið

Vandaðu til verka við skrif á efninu. Ef viðskiptavinurinn finnur ekki það sem hann er að leita að fljótt og örugglega er hann fljótur að rekja sig aftur í Google leitarniðurstöðurnar og smella á vef samkeppnisaðilans.

Hugsaðu stórt en hafðu það einfalt og notendavænt þegar þú ferð í loftið með nýju vefsíðuna þína. Það er alltaf hægt að bæta við og breyta seinna.


Hjá Cyan færðu alla þá ráðgjöf sem þú þarfnast varðandi leitarvélabestun, efnisinnsetningu og notendaupplifun. Ekki hika við að hafa samband og við tökumst saman á við þetta krefjandi og skemmtilega verkefni.